top of page

LEIKSKÓLASTARF

Dagskipulag 

8:00  Leikskólinn opnar
8:00- 8:30 Rólegir leikir
8:30- 9:00 Morgunmatur
9:00- 9:15 Morgunstund
9:15- 9:40 Hópastund
10:00-10:40 Útivera
10:45-11:00 Söngstund
11:00-11:35 Hádegismatur
11:50-13:00 Hvíld
13:00-14:30 Hvíld/Róleg stund/útivera
14:30-15:00 Síðdegishressing
15:15-15:30 Sögustund
15:30-16:00 Frjáls leikur
16:00 Leikskólinn lokar

Hópastarf

Krílasel leggur mikla áherslu á hópastund. Í hópastundinni er börnunum skipt niður í 4-5 barna hópa. Hópastund fer fram þrisvar sinnum í viku. Þar er unnið í könnunarleik, málþroskaverkefnum (Lubbi finnur málbein og lærum og leikum) og fínhreyfiverkefnum. Sami starfsmaðurinn sinnir sama hópnum allan veturinn til að fá ákveðna samfellu í starfið og að börnin njóti öryggis. Börn sem eru saman í hóp, læra að þekkja hvert annað og að treysta hvert öðru sem er grundvöllur að góðu samstarfi og vináttu.

Könnunarleikurinn

Könnunarleikur á að vera án beinnar stýringar frá kennara. Í leiknum fær barnið viðeigandi hráefni til að leika með og kanna á eigin forsendum og á eigin mismunandi hátt og ná á sama tíma að þjálfa skynfæri sín og fá útrás fyrir forvitni sína. Markmiðið er að þroska einbeitingu, athyglisgáfu og örva skynfærin með því að barnið rannsaki og uppgötvi. Leikurinn ýtir einnig undir örvun á sköpun og málörvun þar sem barnið lærir að tengja orð við hluti og aðgerðir.

Í könnunnarleiknum eru börnin saman í 4-5 barna hópum ásamt einum starfsmanni og fer leikurinn fram í lokuðu herbergi. Tilgangurinn er að örva sköpun og ímyndun barnsins með því að þau fá ýmiskonar leikefni sem þau kanna og skoði mismunandi möguleika þess. Hlutirnir sem börnin fá í leiknum eru ekki venjuleg plastleikföng úr búð heldur eru þetta alls konar hversdagslegir hlutir svo sem stórar dósir, tréklemmur, keðjur og gamlir lyklar. Starfsmaðurinn fylgist með án afskipta en grípur inn í ef þörf krefur. Í lok leiksins læra börnin ýmis hugtök þar sem þau aðstoða starfsmanninn við að taka saman. Starfsmaður leiðir börnin áfram með stuttum og skýrum setningum eins og "komdu með stóru dósina" og "líttu fyrir aftan þig" og svo framvegis.

Frjáls leikur

Leikurinn er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins og þannig hornsteinn leikskólastarfsins. Öll þekkingaröflun mannsins hefst í bernsku í gegnum leikinn.  Í Krílaseli mun verða lögð rík áhersla á að börnum fái nægan tíma í frjálsum leik og hugmyndaraflið virkjað út í ítrustu æsar í efniviði.

bottom of page