top of page

MAT OG MATSAÐFERÐIR

Oftast eru börn á aldrinum 1–2 ára ekki komin með mjög þróað tungumál. Þau hafa samt samskipti sín á milli sem felast í líkamstjáningu og í gegnum leik. Hægt er að fá nokkuð góða mynd af því sem að barnið fæst við með því að fylgja því eftir í nokkra daga í senn. Það auðveldar öflun gagna ef tími og viðfangsefni eru valin markvisst og spurningin, sem ætlunin er að fá svör við, er vel ígrunduð. Dæmi: Hvað er barnið að fást við? Við hverja á það samskipti? Hvernig samskipti á barnið við fullorðna? Við önnur börn? Hvað er það sem virðist skipta barnið máli? Hvert er hlutverk barnsins í þeim verkefnum sem lögð eru fyrir börnin? Mikilvægt er að leikskólakennarinn sé búinn að gera sér grein fyrir hvað hann ætlar að gera með þær upplýsingar, sem hann býr yfir, og greini gögnin samkvæmt því.

Innra mat

Innra mat byggir á gagnaöflun sem styðst við nokkrar aðferðir sem hafa gefist vel. Vegna aldurs barnanna í Krílaseli væri sennilega best að að taka upp á myndbönd, ljósmyndir og að halda dagbók. Matið á að vera umbótamiðað og úrbætur eiga að miðast að því að laga námsumhverfið og starfsaðferðir að þörfum barnsins en ekki barnið að þörfum leikskólans.

Boy at Playground

MEÐ NOTKUN MYNDBANDS

er einu barni fylgt eftir, á ýmsum tímum dagsins, í fyrirfram ákveðinn tíma. Þannig er leitast við að horfa á heiminn með augum barnsins. Úrvinnsla felst í því að kennarinn skoðar myndbandið, einn og/eða með öðrum, og velur hvað á að vinna með áfram. Einnig má nýta myndbandið til að sýna foreldrum á foreldrafundum, barninu og öðrum sem ætlunin er að gefa innsýn í leikskóladaginn.

Kids at Playground

MEÐ LJÓSMYNDUM

er t.d.reynt að fanga svipbrigði barnsins í ákveðnum aðstæðum eða sýna ferli ákveðins verkefnis. Taka þarf nærmyndir án þess þó að það trufli barnið. Við úrvinnslu þarf kennarinn að ígrunda það sem birtist á myndinni í ljósi þeirra upplýsinga sem hann skráir hjá sér þegar myndirnar eru teknar. Þannig getur ljósmynd varpað ágætu ljósi á athafnir barnsins.

Kids Painting

DAGBÆKUR

Einnig er gott að styðjast við dagbækur þar sem skrifað er niður það sem drífur á daga barnsins. Hvernig það nærist, hvílist, við hvern/hverja það leikur yfir daginn og hvað barnið fæst við. Mikilvægt er að hlustað sé á barnið út frá forsendum þess við úrvinnslu gagnanna. T.d. hvað skiptir barnið máli?. Skráningarblöð hafa reynst vel til að fylgjast með framvindu barns í einstaka verkefnum og getu þess og náms- og þroskaleiðum. Þannig er hægt að fá yfirsýn yfir hver þátttaka barnsins var, ferlið, og hvað má læra af því. Mikilvægt að setja sér markmið um hvað gera skal við upplýsingarnar. Til að skráning komi að gagni fyrir barnið verður leikskólakennarinn að vinna úr og ígrunda skráninguna og koma með tillögur að næstu skrefum. Ef sá leikskóli sem tekur við barninu um 24 mánaða aldurinn óskar eftir má afhenda honum gögn um barnið með samþykki foreldra. Þetta á kannski sérstaklega við þegar um sérþarfir barns er að ræða. Innra mat fer fram tvisvar á ári á vorin og haustin og eru niðurstöður ræddar við foreldra í foreldraviðtölum.

Child Doing Art Activity

Áætlað er að gera matáætlun til þriggja ára og að endurskoðun á innra mati og aðferðum þess fari fram á 3 ára fresti.

bottom of page