top of page

UMÖNNUN OG UMHYGGJA

Umönnun og umhyggja eru einnig einkunnarorð Krílasels. Í barnaverndarlögum nr. 80/2002, 1. gr. sem endurspegla líka Barnasáttmála Sameinuðu þjóðana kemur meðal annars fram að börn eigi rétt á og skuli njóta ákveðinna réttinda hvað varðar vernd og umönnun. Þessi réttindi þeirra miðast við aldur og þroska þeirra. Hver sá sem axlar þær skyldur að ala upp og annast börn skuli miða allt út frá því sem hentar barninu og þörfum þess sem best. Sýna skal börnum virðingu og umhyggju, ásamt því að vanda til þegar kemur að uppeldisaðstæðum, og hafa velfarnað barnanna að leiðarljósi (Barnaverndarlög nr. 80/2002). Umönnun og daglegar venjur eru stór hluti af leikskólastarfinu í Krílaseli. Umönnun er fólgin í því að annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Með slíkri umönnun skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust. Leikskóladvölin á þannig að gefa börnunum aukið sjálfstraust, samskiptaþroska, málþroska og að þau læri að bera virðingu fyrir öðrum og umhverfi sínu.  Neil  Noddings telur m.a. að  takmark náms ætti að vera að einstaklingurinn fá tækifæri til að þroska hæfileika sína. Öll börn þarfnast þess að vera sýnd umhyggja og að fá jákvæð viðbrögð. Í umhyggju felst að vera annt um líðan, velferð og framtíðarhag barnanna. Umhyggja kennarans getur birst annars vegar í því að sýna barni hlýju og hjálpsemi, að hann beri hag  barnsins fyrir brjósti. Hins vegar getur umhyggja fyrir velferð barnsins birst sem hæfni kennarans til að koma auga á styrkleika og getu hvers og eins og hvatt það. Umhyggjusamur leikskólakennari lætur sér annt um börnin, gerir kröfur en er samt líka sveigjanlegur.

bottom of page